fimmtudagur, 3. júlí 2008

miðvikudagur, 18. júní 2008

Ja hérna!




Eftir 25 ára afmælið hélt maður að óvissuferðin þá yrði ekki toppuð.

En svo tókst þeim það.

Að fara með 55 fimmtuga (eða þar um bil) MA-stúdenta í flúðasiglingu er náttúrlega bara snilld. Verst að eiga engar myndir af hasarnum.

Álftagerðisbræður og Geirmundur áttu kvöldið, en ísbjörninn sem var pantaður varð heldur seinn fyrir.

Hafið kæra þökk fyrir, þið sem skipulögðuð þetta.

Svo var hátíðin í Höllinni frábær að vanda. Við slógum aftur í gegn með flutningi okkar á Emmu, og kveðjunni frá Adam var skilað til Tryggva sem gladdist mjög.

Hörðustu djammararnir voru að príla yfir girðinguna kringum Lystigarðinn í morgunsárið.....

Þetta var frábært. Takið strax frá 14. - 17. júní 2013 fyrir 35 ára afmælið.

sunnudagur, 15. júní 2008

Og það heldur áfram.....







Smellið á myndirnar til að sjá þær í fullri stærð.

Og svo er það óvissuferðin!

laugardagur, 14. júní 2008

Fjörið er byrjað!










Það hófst í dag með 4 tíma fjallgöngu upp að skólavörðunni og þaðan út og suður um alla Vaðlaheiði. Þetta var svokölluð sukkjöfnun - eftir þessa æfingu má sukka helling.

Vonandi skilaði héraðsdómarinn sér til baka - ef ekki þá kannski sækjum við hann á morgun.

Svo er það Vélsmiðjan í kvöld og óvissuferðin á morgun.

Það er bongóblíða nú og næstu daga. Eins og alltaf þegar við mætum til að júbílera.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Fjallganga, bekkjarpartý, óvissuferð, MA-hátíð!


Þá er nú endanlega komið á hreint hvernig dagskráin okkar verður um næstu helgi.


Á laugardag, 14. júní,
er mæting á bílastæðinu við Gamla skóla kl. 12, sameinast í bíla og ekið yfir í Vaðlaheiði þar sem gengið verður upp að skólavörðunni og steinum bætt í hana. Um kvöldið hittumst við svo í bekkjarpartýi á efri hæð Vélsmiðjunnar sem við höfum út af fyrir okkur frá kl. 21 til miðnættis.

Sunnudaginn 15. júní mætum við kl. 11:00 á bílastæðinu við MA til að halda í óvissuferð sem standa mun fram yfir miðnætti (áætluð heimkoma er um kl. 01:00). Hafið með ykkur hlý föt, sundföt, Sjallaföt og peninga (reiðufé, engin kort) til að greiða fyrir drykki um kvöldið. Ekki þarf að hafa nesti meðferðis. Það lítur vel út með mætingu, fjöldinn er kominn í 59 við síðustu talningu.

Mánudaginn 16. júní er svo MA-hátíð í Íþróttahöllinni, sem hefst með fordrykk kl. 18:00. Munið að skrá ykkur á www.bautinn.muna.is ef þið eruð ekki búin að því, og sækja svo miðana 15. eða 16. júní milli kl. 13 og 17. Glæsilegur þríréttaður matseðill, skemmtiatriði og söngur. Við 30 ára stúdentar verðum kölluð fram á gólf til að syngja Emmu (sem þýðir að við þurfum að æfa okkur í óvissuferðinni).

Hljómsveitin Í svörtum fötum leikur fyrir dansi en einnig munu þeir Hermann Arason og Níels Ragnarson leika fyrir dansi á efri hæð hússins.

Þetta verður frábært!

fimmtudagur, 5. júní 2008

Þetta er allt að koma





Það tínast inn skráningar í óvissuferðina, fjöldinn kominn yfir 50 manns og enn ekki (alveg) búið að loka fyrir skráningar. Þið sem enn eigið eftir að skrá ykkur eruð beðin að gera það sem fyrst, sjá leiðbeiningar hér neðar á síðunni.

Þessar myndir síðan síðast eru frá Friðjóni 6-X.